Fjárlagahalli breska ríkisins á síðasta ári nam um 10,4% af vergri landsframleiðslu, samkvæmt gögnum Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins. Hlutfallið er það þriðja hæsta meðal ríkja Evrópusambandsins og er hærra en hjá Portúgal, sem nýlega óskaði eftir fjárhagsaðstoð, og hjá Spáni. Óttast er að Spánn verði næsta ríki sem þarf að óska eftir aðstoð vegna fjárhagserfiðleika.

Sem hlutfall af landsframleiðslu var fjárlagahallinn mestur á Írlandi á árinu 2010, eða um 32,4%. Næst í röðinni kom Grikkland þar sem hlutfallið var um 10,5%. Líkt og kunnugt er hafa bæði ríkin þegið aðstoð björgunarsjóðs Evruríkja og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.