*

fimmtudagur, 24. september 2020
Innlent 12. júlí 2020 13:09

Meiri hækkanir á landsbyggðinni

Verð á sérbýli hefur hækkað um 48% á tveimur árum á Ísafirði. Á Egilsstöðum hefur verð einnig hækkað mikið eða um 46%.

Sveinn Ólafur Melsted

Á höfuðborgarsvæðinu er ódýrast að kaupa sérbýli í Hafnarfirði en dýrast á Seltjarnarnesi. Á landsbyggðinni er sérbýli dýrast á Akranesi en ódýrast á Ísafirði. Þetta kemur fram í upplýsingum úr verðsjá Þjóðskrár Íslands en þær upplýsingar byggja á þinglýstum kaupsamningum fasteigna.

Viðskiptablaðið skoðaði meðalverð á 100 til 400 fermetra sérbýli í nokkrum sveitarfélögum á fyrstu fimm mánuðum ársins. Einnig var skoðað hvert meðalverðið var á sama tímabili fyrir tveimur árum.

Á höfuðborgarsvæðinu er meðalfermetraverð tæplega 393 þúsund krónur. Verðið er langhæst á Seltjarnarnesi eða rúmlega 443 þúsund en lægsta fermetraverðið er í Hafnarfirði, þar sem það er tæplega 362 þúsund krónur. Samkvæmt þessu kostar því 200 fermetra sérbýli tæplega 89 milljónir króna á Seltjarnarnesi en rúmlega 72 milljónir í Hafnarfirði. Á síðustu tveimur árum hefur verð á sérbýli hækkað um 5% á höfuðborgarsvæðinu. Mest hefur verðið hækkað í Garðabæ og Kópavogi eða um 9%, fast á hæla þeirra fylgir Mosfellsbær, þar sem verðið hefur hækkað um 8%. Verð á höfuðborgarsvæðinu hefur minnst hækkað í Reykjavík eða um 2%. Fermetraverðið hefur hækkað svipað mikið í sveitarfélögum innan höfuðborgarsvæðisins, eða á bilinu 2-9%.

Hækkað mest en samt ódýrast á Ísafirði

Viðskiptablaðið skoðaði einnig verð á sérbýli í tíu sveitarfélögum á landsbyggðinni. Verðið er hæst á Akranesi, þar sem fermetrinn kostar tæplega 330 þúsund krónur. Næsthæsta verðið er í Hveragerði, en þar er fermetrinn á tæplega 323 þúsund krónur. Lægsta fermetraverðið er á Ísafirði eða 182 þúsund krónur. Miðað við þetta kostar 200 fermetra sérbýli um 66 milljónir króna á Akranesi, í Hveragerði kostar það tæplega 65 milljónir en á Ísafirði rúmlega 36 milljónir.

Á síðustu tveimur árum hefur verð á sérbýli á landsbyggðinni hækkað mest á Ísafirði. Þar hefur fermetraverðið hækkað úr 123 þúsund krónum í 182 þúsund eða um 48%. Þrátt fyrir þetta er, líkt og áður segir, fermetraverðið á Ísafirði það ódýrasta á meðal sveitarfélaganna tíu. Næstmesta hækkunin er á Egilsstöðum þar sem fermetrinn kostar nú 273 þúsund krónur en kostaði 187 þúsund fyrir tveimur árum. Fermetraverð á Egilsstöðum hefur því hækkað um 46% á tímabilinu.

Í einu sveitarfélagi hefur fermetraverð nánast staðið í stað á síðustu tveimur árum en það er á Akureyri. Þar kostar fermetrinn 310 þúsund krónur núna en kostaði 301 þúsund fyrir tveimur árum. Fermetraverð á Höfn í Hornafirði hefur hækkað um 7% á síðustu tveimur árum, en fermetraverð í þessum tveimur sveitarfélögum hefur hækkað áberandi minnst af þeim tíu sveitarfélögum sem skoðuð voru.

Nánar er fjallað um málið Framkvæmdablaðinu, sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.