HSBC Holdings, stærsti banki í Evrópu, segir afkomu sína á fyrsta ársfjórðungi í ár betri en í fyrra. Vöxtur bankans í Asíu vann upp 5 milljarða Bandaríkjadala tap vegna afskrifta eigna og tapaðra viðskiptakrafna. Bankinn birtir ekki ársfjórðungsuppgjör, en mun gefa frá sér hálfsársuppgjör 4. ágúst. Hlutabréf bankans höfðu hækkað um 2% rétt eftir hádegi í dag.

Forstjóri bankans, Michael Geoghegan, sagði að það væri engin ástæða fyrir HSBC að skera niður. „Uppgjör okkar á síðasta ári og tilkynningin í dag sýna að það að eiga fjölbreytt viðskipti er rétta aðferðin við að reka banka.“

Hlutabréf HSBC hafa hækkað um 5% á þessu ári, en evrópska Dow Jones bankavísitalan hefur lækkað um 14% á árinu.