„Ég held að það sé alveg ljóst að þegar fram líður þá munu þessar tölur verða endurskoðaðar uppávið,“ segir Katrín Ólafsdóttir, hagfræðingur og lektor við viðskiptadeild HR, í samtali við fréttastofu RÚV .

Samkvæmt nýjustu tölu Hagstofu Íslands var hagvöxtur á þriðja ársfjórðungi neikvæður um 0,2% og hagvöxtur á fyrstu þremur ársfjórðungum var hálft prósent. Katrín telur að hagvaxtartölurnar verðir endurskoðaðar og þá komi í ljós að hagvöxtur sé meiri en tölurnar gefa til kynna.

„Þegar að maður fer að rýna ofan í tölurnar, þá er eins og vanti aðeins innra samhengið. Við sjáum þarna mikinn innflutning, einhvers staðar ætti innflutningurinn að koma fram, hann ætti að koma fram í einkaneysllu og fjárfestingu. Hann kemur að einhverju leyti fram í fjárfestingunni, en alls ekki einkaneyslunni,“ segir Katrín í samtali við RÚV.

Katrín situr einnig í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, en Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði á stýrivaxtarfundi í síðustu viku að hagvaxtartölur Hagstofunnar rímuðu ekki við vísbendingar um þróun eftirspurnar.