Hagvöxtur í Bandaríkjunum á öðrum ársfjórðungi nam 3,7% en ekki 2,3%, eins og áður hafði verið gefið út af hagstofunni þar í landi. Aftur á móti reyndust fyrri tölur um fyrsta ársfjórðung réttar, en þá nam vöxturinn aðeins 0,6%.

Einkaneysla var helsti áhrifavaldur þess að tölurnar hækkuðu, auk meiri ríkisútgjalda og aukins útflutnings. Greiningaraðilar gerðu ráð fyrir að hagvaxtartölurnar yrðu endurskoðaðar, en bjuggust þó ekki við að breytingin yrði svona mikil.

Gengi hlutabréfa hefur farið hækkandi á bandarískum markaði í dag. Dow Jones-vísitalan hefur hækkað um 1,78% og S&P 500-vísitalan hefur hækkað um 1,95%.