Japanska hagkerfið óx hraðar en hagkerfi evrusvæðisins og Bandaríkjanna á fyrsta fjórðungi þessa árs samkvæmt endurskoðaðri hagvaxtarmælingu stjórnvalda. Telja sumir sérfræðingar þetta hafa í för með sér auknar líkur á að Japansbanki hækki vexti á næstu mánuðum en aðrir benda á að of langur tími sé liðinn frá fjórðungnum til að tölurnar hafi áhrif á mat stjórnenda Japansbanka. Hlutabréfavísitölur hækkuðu í kauphöllinni í Tókýó í kjölfar þess að það var staðfest að vöxtur hefði verið meiri en fyrstu mælingar gáfu til kynna.

Hagvöxtur var um 0,8% á fjórðungnum eða um 3,3% á ársgrundvelli. Fyrstu hagvaxtarmælingar fyrir fjórðunginn sýndu 0,6% vöxt eða um 2,4% hagvöxt á ársgrundvelli en í ljós kom að fjárfesting var meiri en áætlað var í fyrstu og er það var hún sem knúði áfram hagvöxtinn á tímabilinu. Afkoma japanskra fyrirtækja hefur verið góð að undanförnu auk þess sem að fjármagnskostnaður þeirra er lágur og hafa stjórnendur þeirra fjárfest mikið í rekstrinum og það hefur knúið áfram lengsta samfellda hagvaxtarskeið í Japan frá og með lokum seinni heimstyrjaldarinnar. Einkaneysla óx um 0,8% á tímabilinu en hún stendur undir ríflega helmingi af allri þjóðarframleiðslu. Þetta er litlu minna en fyrstu mælingar bentu til en þá mældist vöxtur hennar 0,9%.

Gert er ráð fyrir að það hægi um í japanska hagkerfinu á yfirstandandi fjórðungi en hinsvegar er búist við hagkerfið nái að vaxa um 2,1% á árinu.