*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 8. maí 2013 16:59

Meiri hallarekstur í Hafnarfirði en gert var ráð fyrir

Lífeyrisskuldbindingar reyndust þungar fyrir Hafnarfjarðarbæ.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Hafnarfjarðarbær skilaði hallarekstri upp á tæpa 2,8 milljarða króna í fyrra. Þetta er verri niðurstaða en ári fyrr þegar hallareksturinn nam einum milljarði króna. Þetta er sömuleiðis undir rekstraráætlun bæjarstjórnar, sem gerði ráð fyrir 421 milljóna króna halla. 

Mestu munar um að í fyrra var gjaldfærð áfallin lífeyrisskuldbinding vegna starfsmanna Sparisjóðs Hafnarfjarðar/ Byrs upp á 1.587,4 milljónir króna. Fram kemur í uppgjöri bæjarins að Sparisjóður Hafnarfjarðar hafi árið 1973 fengið aðild að sjóðnum fyrir starfsfólk sitt og ábyrgðist lífeyrisgreiðslur til þeirra í samræmi við samþykktir eftirlaunasjóðsins. Við sameiningu sparisjóða gekk Sparisjóður Hafnarfjarðar inn í Byr sparisjóð sem er í slitameðferð. Þann 2. nóvember í fyrra hafi svo gengið dómur í Hæstarétti í máli Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins gegn SPRON  sem hafi afgerandi áhrif á ágreining eftirlaunasjóðsins við þrotabú Byrs sparisjóðs.  Samkvæmt dómnum er lífeyrisskuldbinding  ekki viðurkennd sem forgangskrafa en slitastjórn sparisjóðsins hefur samþykkt kröfu eftirlaunasjóðsins sem almenna kröfu.  Óvissa ríkir um hversu hátt hlutfall greiðist upp í  almennar kröfur sparisjóðsins en Hafnarfjarðarbær mun leita allra hugsanlegra  leiða til að kanna réttarstöðu sína gagnvart þrotabúinu og ábyrgðinni á skuldbindingunni.  

Veltufé frá rekstri hækkar

Fram kemur í uppgjörinu kemur hins vegar fram að þrátt fyrir rekstrarhalla hafi veltufé frá rekstri hækkað á milli ára, bæði  í A hluta og A og B hluta og var hærra en áætlun gerði ráð fyrir. Veltufé í A hluta var 1.379 milljónir króna í fyrra og veltufé í A og B hluta nam 2.018 milljónum króna. Veltufé frá rekstri nam um 12% af tekjum. 

Heildareignir A og B hluta námu í árslok 48.204 milljónum króna og hækka á milli ára aðallega vegna endurmats lóða. Skuldir og skuldbindingar námu 41.836 milljónum króna og hækka um 2.815 milljónir þrátt fyrir greiðslu langtímaskulda um 1.596 milljónir. Þá hækkuðu skuldbindingar um 2.112 milljónir króna vegna hækkunar á lífeyrisskuldbindingu, tekin voru ný lán upp á 470 milljónir og hækkuðu lán bæjarins um 1.664 milljónir vegna áfallinna verðbóta og gengismunar. Eigið fé bæjarsjóðs nam 6.367 milljónum króna í lok síðasta árs.

Ánægður bæjarstjóri

Haft er eftir Guðrúnu Ágústu Guðmundsdóttur bæjarstjóra að hún sé stolt af þeim árangri sem náðst hafi í rekstri Hafnarfjarðarbæjar þótt utanaðkomandi þættir eins og hækkun lífeyrisskuldbindinga ogog verðlags- og gengisbreytingar hafi haft verulega neikvæð áhrif á heildarniðurstöðuna. Gengisstyrking á þessu ári hefur hins vegar breytt myndinni verulega, að hennar sögn. 

Ársreikningur Hafnarfjarðarbæjar

Stikkorð: Hafnarfjörður