Það er forgangsverkefni fyrir Evrópska seðlabankann að halda aftur af verðbólgu jafnvel þótt það hægist á hjólum efnahagslífsins á evrusvæðinu, sagði Jean- Claude Trichet seðlabankastjóri þegar hann rökstuddi þá ákvörðun bankans að halda stýrivöxtum óbreyttum í 4,25%. Það gerði hann á blaðamannafundi í Frankfurt í gær. Fyrr um daginn hafði peninganefnd Englandsbanka einnig ákveðið að halda stýrivöxtum óbreyttum í 5%, fimmta mánuðinn í röð.

Hagvísar gefa til kynna að niðursveiflan í hagkerfinu verði alvarlegri en áður var talið og af þeim sökum hefur Englandsbanki lítið svigrúm til að hækka stýrivexti til að vinna gegn verðbólgu. Ákvörðun Evrópska seðlabankans var í samræmi við spár hagfræðinga sem töldu víst að vextir myndu haldast óbreyttir eftir að seðlabankinn ákvað að hækka stýrivexti í síðasta mánuði – úr 4% í 4,25%. Fram kom í máli Trichets á blaðamannfundinum að verðbólga myndi „líklega haldast áfram yfir því sem geti talist í samræmi við verðstöðugleikamarkmið seðlabankans“. Hann bætti því við að til meðallangs tíma stafaði evrusvæðinu meiri hætta af verðbólgu heldur en minnkandi hagvexti.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .