Í maímánuði var innlausn hlutdeildarskírteina í hlutabréfasjóðum um 1,1 milljörðum króna umfram sölu, samkvæmt nýlega birtum tölum Seðlabankans. Í umfjöllun Greiningar Íslandsbanka er bent á að þetta er annar mánuðurinn í röð þar sem fjárfestar virðast hafa minnkandi áhuga á hlutabréfasjóðum en innlausn var jafnframt umfram sölu í apríl.

Þróunin síðust ár hefur að mestu verið á hinn veginn þ.e. sala hlutdeildarskírteina hefur verið umfram innlausn þeirra. Áhugi fjárfesta á fjárfestingum í hlutabréfasjóðum virðist því eitthvað hafa dvínað yfir þetta tímabil. Yfir sama tímabil virðist hins vegar áhugi fjárfesta á skuldabréfasjóðum hafa aukist. Innlausn hafði um töluvert langt skeið að mestu verið umfram sölu en á tímabilinu febrúar til maí á þessu ári hefur sala í skuldabréfasjóðum verið umfram innlausn.

Kaupvilji í þessum tveim sjóðaformum er nokkuð ólíkur þróun markaða, að því er Greining Íslandsbanka segir. Þannig hækkaði gengi hlutabréfa verulega yfir þessa tvo mánuði (apríl og maí) á meðan gengisvísitala ríkisskuldabréfa (NOMXIBB) lækkaði nokkuð. Frá ársbyrjun og til loka maí var ávöxtun hlutabréfa eins og hún er mæld með Úrvalsvísitölu Kauphallarinnar (OMXI8) rúm 10% en ávöxtun ríkisskuldabréfa eins og hún er mæld með vísitölu kauphallarinnar (NOMXIBB) einungis um 2,2%. Mikill hluti hækkunar hlutabréfa kom til í apríl og maí en yfir það tímabil hækkuðu hlutabréf um 7,6%.