Vöxtur var í öllum tegundum verslunar í desember að frátalinni fataverslun sem dróst lítillega saman frá fyrra ári. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Rannsóknarsetri verslunarinnar .

Veltuaukning var mest áberandi í varanlegum neysluvörum eins og raftækjum og húsgögnum. Samanlögð velta smásöluverslunar í nóvember og desember, samkvæmt smásöluvísitölunni, jókst um næstum 6% að raungildi frá sama tímabili árið áður og þar með nokkuð umfram spá Rannsóknaseturs verslunarinnar frá því í október sl., þar sem gert var ráð fyrir liðlega 4% vexti.

Þá gerðu landsmenn vel við sig í mat um jólin, en í desember jókst velta dagvöruverslunar um 3,1% að raunvirði sem var heldur meiri ársvöxtur en í desember árið áður.

Mest hlutfallsleg aukning var þó í sölu á raftækjum eða á bilinu 18 – 20%, bæði í svokölluðum hvítvörum eins og ísskápum og þvottavélum og í minni tækjum, svokölluðum brúnum tækjum. Auk þess er enn töluverður vöxtur í sölu snjallsíma.

Vöruverð lækkaði á tólf mánaða tímabili í flestum vöruflokkum. Þannig var verð á dagvöru 1,2% lægra en í desember en fyrir ári síðan og 9,2% lægra á raftækjum, svo dæmi sé tekið. Verð hækkaði hins vegar lítillega á áfengi og skóm.