Viðskiptum með íbúðir heldur áfram að fækka, að því er kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu HMS. Á höfuðborgarsvæðinu fækkaði kaupsamningum á milli október og nóvember úr 409 í 394 miðað við árstíðaleiðréttar tölur og hafa samningar ekki verið færri þar frá árinu 2012.

Á landinu öllu voru 613 viðskipti með stakar íbúðir miðað við árstíðaleiðréttar tölur, samanborið við 644. Fjöldi viðskipta fór hæst í nærri 1.500 í mars 2021.

Framboð íbúða til sölu jókst töluvert þegar leið á síðasta ár en dróst þó saman í desembermánuði. HMS segir að líklega sé aðallega um árstíðabundna sveiflu að ræða. Samkvæmt nýjustu tölum eru um 2.280 íbúðir til sölu á landinu öllu samanborið við 2490 í lok nóvember. Íbúðum til sölu hefur fjölgað um ríflega 100 það sem af er janúar.

Fleiri íbúðir seljast talsvert undir ásettu verði

Á árunum 2021 og 2022 seldist stór hluti íbúða á yfirverði en hlutfallið hefur þó farið lækkandi á síðustu misserum. Á höfuðborgarsvæðinu seldust 17,4% íbúða í desember á yfirverði samanborið við 19,3% í nóvember og 23,9% í október. Þar af seldust 18,6% sérbýla yfir ásettu verði en 16,6% íbúða í fjölbýli.

HMS bendir á að á höfuðborgarsvæðinu hefur fjölgað hratt fjölbýlum sem seljast talsvert undir ásettu verði eða meira en 5%. Hlutfallið var um 10,5% í desember samanborið við 3,2% í ágúst.

Í desember seldust 21% sérbýla talsvert undir ásettu verði samanborið við 15,4% í nóvember og 10,7% í október. Á síðustu tveimur árum hefur hlutfallið yfirleitt verið í kringum 10% en fór lægst í 4,1% í júlí síðastliðnum.

Meiri kaupendamarkaður en seljendamarkaður

Birgðatími á höfuðborgarsvæðinu var 3,1 mánuður nú í byrjun janúar. Sá mælikvarði gefur til kynna að það tæki svo langan tíma að selja jafn margar íbúðir og voru þá til sölu ef fjöldi viðskipta yrði sá sami og í desember. Birgðatíminn styttist úr 3,3 mánuðum í desember en fram að því hafði hann aukist hratt frá því í júní þegar hann var 1,1 mánuður.

„Aukinn birgðatími gefur til kynna að nú sé fasteignamarkaðurinn meiri kaupendamarkaður en seljendamarkaður.“

Meðalsölutími íbúða var 41,3 dagar á höfuðborgarsvæðinu í desember og hefur verið nokkuð stöðugur frá því í júní að sögn HMS. Í nágrannasveitarfélögunum mældist hann 44,8 dagar og annars staðar á landsbyggðinni mældist hann 52,9 dagar og hefur aðeins mælst lægri í mánuðinum á undan.

„Það kann að vekja nokkra furðu að meðalsölutíminn hafi ekki aukist meira en raunin er en hafa ber í huga að aðeins er hægt að mæla sölutímann á íbúðum sem búið er að selja. Aukið framboð og fá viðskipti gefa til kynna að meðalsölutími íbúða sem settar eru á sölu núna er líklega að aukast.“