Jón Daníelsson, prófessor í hagfræði við London School of Economics og forstöðumaður rannsóknaseturs um kerfisáhættu í fjármálakerfinu, skrifaði hugleiðingu á vefsíðuna sína síðastliðinn sunnudag þar sem hann hélt því fram að meiri kerfisáhætta væri til staðar í fjármálakerfinu í dag en árið 2008. Þó telur hann álíka fjármálakrísu og árið 2008 vera ólíklega.

„Það voru bara örfá lönd sem upplifðu kerfishrun, líkt og Ísland og Írland.“ Þær aðgerðir sem gripið hafi verið til í kjölfar fjármálakrísunnar hafi dregið mikið úr fjölbreytileika innan fjármálakerfisins sem auki kerfisáhættu.

Í samtali við Viðskiptablaðið nefnir Jón að undanfarna daga hafi mikið verið rætt um bankann Credit Suisse, sem markaðurinn virðist vera hættur að treysta. Það geri bankanum erfiðara fyrir að fjármagna sig þar sem honum verði þá lánað á óhagstæðari kjörum.

„Kostnaðurinn eykst því og bankinn lendir í fjármögnunarvítahring. Það mun leiða til þess að bankinn fer að selja bestu eignirnar sínar til að fjármagna sig. Nú virðist markaðurinn vera farinn að verðleggja bankann eins og það séu töluverðar líkur á því að hann verði gjaldþrota.“

Jón varar við því að ofmeta það vandamál. Verði bankinn gjaldþrota muni svissneska ríkið taka hann yfir. Svissneska ríkið sé mjög vel stætt og hefur fylgst vel með bankanum eftir að fór að hrikta í stoðum hans.

„Í kjölfarið yrði bankinn hugsanlega bútaður niður, enda er hann svo stór að það yrði erfitt að selja hann í heilu lagi. Það er allavega alveg ljóst að svissnesk yfirvöld eru að íhuga það að gera eitthvað við þennan banka, en hvað það verður er óljóst.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út í dag.