Þóranna Jónsdóttir, forseti Viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík, segir að krafan um að viðskiptafræðingar ljúki meistaraprófi sé sífellt að aukast og sú krafa komi ekki síst úr atvinnulífinu. Áður fyrr hafi fólk lokið fjögurra ára Cand.oceon. námi og þar með hafi menntuninni nánast verið lokið. Síðar hafi orðið til þriggja ára B.Sc. próf og mjög margir hafi farið beint út í atvinnulífið eftir það. Nú séu fleiri og fleiri að koma til baka til að sækja sér framhaldsmenntun.

„Við höldum reglulega rýnihópa og samtöl við stjórnendur í atvinnulífinu. Síðastliðið haust héldum við tvo stóra rýnihópa þar sem það kom mjög skýrt fram hjá stjórnendum að það væri nánast orðin krafa að ef þú vildir fá ábyrgðarstöðu í viðskiptalífinu þá yrðir þú að vera með meistarapróf,“ segir Þóranna. Þessi krafa hafi ekki verið eins rík á árum áður en nú væri sú krafa að aukast mjög hratt.

„Við spurðum okkar nemendur núna í vetur. Af þeim sem eru að klára í vor þá ætla yfir 80% að fara í meistaranám innan tveggja til þriggja ára. sem þýðir það að eftir fimm ár, þegar það eru komnir nokkrir árgangar með meistaragráðu, þá þurfa þeir sem útskrifuðust fyrir tíu árum og eru ekki með meistaragráðu virkilega að hugsa sinn gang,“ segir Þóranna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .