Heildarvelta Kauphallarinnar í dag nam einungis 830 milljónum króna þegar 13 af 20 félögum hennar lækkuðu. Íslenska krónan veiktist gagnvart öllum helstu gjaldmiðlum heims. Krónan veiktist um 1,12% gagnvart evrunni, um 1,11% gagnvart dollaranum og um 1,22% gagnvart sterlingspundinu.

Mestu viðskipti Kauphallarinnar voru með bréf Marels sem lækkuðu um 1,00% í 226 milljóna króna viðskiptum en bréfin standa nú í 690 krónur á hlut. Arion banki lækkaði um 0,48% í 125 milljóna króna viðskiptum og standa bréf bankans nú í 62,4 krónum á hlut.

Icelandair lækkaði annan daginn í röð mest af félögum Kauphallarinnar eða um 9,52% í þriggja milljóna króna viðskiptum. Sjóvá lækkaði næst mest eða um 2,25% en velta bréfanna nam 66 milljónum króna.

Hagar og Sýn voru einu félögin sem hækkuðu í dag. Hagar hækkaði um 0,30% í átta milljóna króna viðskiptum og Sýn um 0,37% í sex milljóna króna viðskiptum.