Greiningardeild Landsbankans hefur verið á þeirri skoðun í nokkurn tíma að hlutabréfamarkaðurinn sé hátt verðlagður en frá síðasta ársfjórðungsriti 15. júní sl. hefur Úrvalsvísitalan hækkað um 35%. "Við eigum ekki von á að hlutabréfaverð haldi áfram að hækka með sama hraða og verið hefur og teljum meiri líkur en áður á því að hlutabréfaverð lækki," segir í nýju ársfjórðungsriti bankans.

Eftirtaldir þættir vega þar þyngst:

Markaðsvirði fyrirtækjanna er orðið töluvert hærra en hefðbundnar sjóðstreymisgreiningar geta skýrt

Verðmatskennitölur sýna að markaðurinn er orðinn töluvert hátt verðlagður, hvort sem horft er á sögulegan samanburð eða samanburð við erlend fyrirtæki

Útlit er fyrir að á seinni helmingi þessa árs muni hlutafélög í Kauphöll Íslands sækja um 250 ma.kr. út á markaðinn í formi nýs hlutafjár, en það er um 22% af heildarverðmæti allra skráðra hlutabréfa. Svo mikið framboð hlutafjár mun draga mjög úr þrýstingi til verðhækkana.

Fjárfestar virðast gera 1,5%-1,6% lægri ávöxtunarkröfu til hlutabréfa en Greiningardeild gerir. Það þýðir í raun að fjárfestar setja að meðaltali sama áhættuálag á íslensk hlutabréf og hlutabréf sem eru skráð eru í Bandaríkjunum, en þar eru þróuðustu markaðir heims

Í vogunarráðgjöf greiningardeildarinnar er mælt með yfirvogun á bréfum Og Vodafone, KB banka og Samherja en undirvogun á bréfum Straums, Össurar, Íslandsbanka og Marels. Í markaðsvogun eru Actavis, Burðarás og Bakkavör.

Sérstakur kafli er um kennitölusamanburð á innlendu félögunum við sambærileg erlend félög