Neysla mælist nú meiri en fyrir faraldurinn. Samanlögð kortavelta Íslendinga var 8% meiri í síðasta mánuði en í júní 2020, á föstu verðlagi og gengi, og 9% meiri en í júní 2019. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbankanum .

Kortavelta innanlands jókst um 20% frá því í júní 2019 en dregst saman um 33% erlendis. „ Þó kortavelta erlendis aukist erum við ekki farin að kaupa vörur og þjónustu erlendis frá í sama mæli og fyrir faraldur, enda mælast ferðalög ennþá langtum færri en í venjulegu árferði,“ segir í tilkynningunni.

Kortavelta innanlands nam 84 milljörðum króna í síðasta mánuði og jókst um 3% á milli ára og erlend kortavelta nam 12,4 milljörðum króna og jókst um 64%. Kortavelta dregur upp ágætis mynd af þróun einkaneyslu en á öðrum fjórðungi þessa árs jókst kortavelta um 15% frá sama fjórðungi árið 2020.

Þá er neyslumynstur þjóðarinnar að breytast. Íslendingar eyða nú um prósentustigi minna í áfengisverslunum en fyrir ári síðan vegna aukinnar neyslu á veitingastöðum og tilslakana á samkomutakmörkunum. Í júní í fyrra jókst áfengisverslun um 39% frá árinu áður.

„Eftir því sem faraldrinum linnir og ferðalög verða almennari má gera ráð fyrir því að neyslan færist aftur meira út fyrir landsteinana og er 97% aukning í kaupum á skipulögðum ferðum og þjónustu ferðaskrifstofa vísbending um það. Kaup Íslendinga á pakkaferðum eru þó enn ríflega 40% minni en var í júní 2019 og því enn nokkuð í land með að við sjáum ferðalög komast aftur á þann stað sem var fyrir faraldur,“ segir í tilkynningunni.