Hlutabréf hækkuðu í Kauphöllinni í New York eftir að markaðir opnuðu í gær í kjölfar þess að hagtölur sýndu mun meiri aukningu í smásölu í maí en væntingar voru um. Á sama tíma jafnaðist ávöxtunarkrafan á tíu ára ríkisskuldabréf en hún hafði hækkað deginum áður og hafði ekki verið hærri í fimm ár. Sú þróun varð til þess að hlutabréf lækkuðu sama dag.

Smásala jókst um 1,4% í maí og almennt hafði verið gert ráð fyrir 0,7% vexti og hefur ekki hækkað meira síðan að hún jókst um 3,3% í janúar í fyrra. Hækkunin varð til þess að slá á ótta manna að neysla kynni að dragast saman á næstu mánuðum sökum samdráttar á fasteignamarkaði og vegna hins háa orkuverðs. Neysla stendur undir tveimur þriðju af þjóðarframleiðslu Bandaríkjanna.

Ávöxtunarkrafan á tíu ára ríkisskuldabréfum var í um 5,23% í gær og er um að ræða lækkun frá því á þriðjudag. Sérfræðingar telja að hræringarnar á ávöxtunarkröfunni á tíu ára bréfunum megi rekja til að hún hafi einfaldlega verið of lág um að leiðréttingu hafi verið að ræða og núverandi gildi endurspegli betur hagkerfið. Áframhaldandi stefna á fjármálamörkuðum kann að ráðast á föstudag en þá verður nýjasta verðbólgumæling í Bandaríkjunum. Mat manna á því hvert stýrivextir kunni að stefna næstu misseri munu ráðast af þeim tölum. Financial Times hefur eftir Marc Pado, aðalmarkaðssérfræðing Contor Fitzgerald, að margir hafi trú á því að ávöxtunarkrafan á skuldabréfunum hafi náð hámarki. Hann segir jafnframt að nýjustu tölurnar um neyslu sýni að hlutabréf þoli hærri ávöxtunarkröfu á skuldabréfum. Hinsvegar bendir hann á að þróunin kann að verða önnur sýni hagtölur á föstudag að verðbólgustigið sé umfram væntingar.