*

miðvikudagur, 16. júní 2021
Innlent 10. júní 2021 13:19

Meiri peningar, fleiri vandamál?

Björn Berg ráðleggur lottóvinningshöfum að sýna skynsemi. Tveir þriðju risavinningshafa vestanhafs verða gjaldþrota innan fárra ára.

Andrea Sigurðardóttir

Líkt og alkunna er, vann ljónheppinn Íslendingur tæplega 1,3 milljarða í Víkingalottó í gærkvöldi. Oft fylgir þó böggull skammrifi, líkt og breski miðillinn Spegillinn fjallaði um á dögunum. Viðskiptablaðið leitaði ráða hjá Birni Berg Gunnarssyni, deildarstjóra greiningar og fræðslu hjá Íslandsbanka, um það hvernig vinningshafar megi forðast það óheillaský sem gjarnan vill fylgja.

Björn segir mikilvægt að passa vel upp á stóra vinninginn, ekki sé sjálfgefið að honum fylgi í öllum tilvikum vellystingar til frambúðar.

„Áhugavert er að velta því fyrir sér hvers vegna um tveir af hverjum þremur sigurvegurum í lottói vestanhafs verði gjaldþrota innan fárra ára. Hvers vegna fara um 40% atvinnumanna í enska fótboltanum, 60% leikmanna NBA deildarinnar í körfuknattleik og þrír af hverjum fjórum ruðningsleikmönnum NFL deildarinnar sömu leið, þrátt fyrir geysiháar tekjur?"

Hann segir það eðlilega vera freistandi að verja háum fjárhæðum í hina ýmsu muni og skemmtanir þegar fjárhagsstaðan býður upp á slíkt. „En sumar fjárfestingar krefjast hárra útgjalda í kjölfar kaupanna. Dýrar fasteignir og illa ígrundaðar fjárfestingar geta þannig fljótlega étið upp varasjóði, þegar litlar tekjur er að sækja til að fylla þá að nýju," segir Björn.

Lánsamir vinningshafar ættu því ekki eingöngu að hyggja að því sem gaman væri að verja peningunum í, heldur einnig hvernig best sé að verja vinninginn og tryggja að hægt verði að njóta hans til lengri tíma.

„Með uppgreiðslu núverandi lána má draga stórlega úr áhættu í heimilisfjármálunum og með skynsamlegri samsetningu fjárfestinga kann stóri vinningurinn að geta af sér litla en kærkomna vinninga með reglulegu millibili," segir Björn að lokum.

Vinningshafinn ku vera fjölskyldufaðir á fertugsaldri. Samkvæmt frétt Vísis hyggst hann fara skynsamlega með fjármunina og hefur þegar þegið fjármálaráðgjöf hjá Íslenskri getspá.