Hagvöxtur mældist 1,1% í Japan á þriðja ársfjórðungi, samkvæmt bráðabirgðatölum japönsku hagstofunnar. Þetta er talsvert minna en búist var við en í nóvember var reiknað með allt að 1,9% hagvexti á fjórðungnum. Breska dagblaðið FInancial Times segir hagtölurnar gefa vísbendingu um að mjög hafi hægt á í japönsku efnahagslífi eftir innspýtingu í kjölfar efnahagsaðgerða Shinzo Abe, sem settist í stól forsætisráðherra Japans í desember í fyrra. Til samanburðar mældist 4,5% hagvöxtur á fyrsta ársfjórðungi og 3,6% hagvöxtur á öðrum fjórðungi.

Á meðal aðgerða Abe sem hlutu mikið lof, var gengisfelling japanska jensins sem kom útflutningsfyrirtækjum til góða auk þess sem hlutabréfamarkaðurinn fór á skrið. Tíðin hefur hins vegar verið rólegri frá miðju ári, að sögn Financial Times.

Hagfræðingar spá því engu að síður að hagkerfið taki við sér á yfirstandandi fjórðungi og þeim fyrsta á næsta ári. Forsendur þess eru væntingar um að neytendur festi kaup á stórum hlutum fyrir heimilið á borð við bíla og fleira í þeim dúr áður en hækkun söluskatts tekur gildi í apríl á næsta ári. Eftir að skatturinn hækkar er svo reiknað með því að hagkerfið kólni á nýjan leik.