Síðustu ár hefur sala á heitum pottum aukist mikið, og segjast sumir seljendur þeirra að nú sé meira selt en var fyrir hrun. Er hvort tveggja aukning í sölu rafmagnspotta, en einnig skelja sem smíða má inn í sólpalla segir í Morgunblaðinu í dag.

„Það hefur verið gríðarleg eftirspurn í sumar. Töluvert meiri en undanfarin ár,“ segir Steinar Þór Þórisson, framkvæmdastjóri og eigandi fyrirtækisins Laugin.is.

Jón Bergsson, hjá samnefndu fyrirtæki, segir vöxtinn hafa verið gríðarlegan undanfarin ár. „Fyrir u.þ.b. tveimur árum fór þetta að aukast. Nú eru flestir með kaupgetu og þegar gengið er komið á sinn sterka stað líkt og núna stekkur fólk til go notar tækifærið áður en gengið lækkar aftur,“ segir Jón, en hann segir nú hærri sölutölur en fyrir hrun.

„Stærsta árið okkar var í fyrra. Bæði er þetta ferðaþjónustan en líka einstaklingar,“ segir Kjartan Ragnarsson hjá NormX. „Þetta er náttúrulega gífurlega fjölskylduvænt og besta afslöppunin fyrir stressaða þjóð.“

Kristján Berg Ásgeirsson eigandi fyrirtækisins Heitirpottar.is segir að þjóðin hafi haldið að sér höndum meðan komist var yfir stóra hjallan eftir hrunið, en nú fjárfesti þjóðin í vellíðan. „Fyrsta maí átti ég 350 potta á lager og hef aldrei átt jafn mikið og þá,“ segir Kristján. „Ég á tuttugu potta eftir núna og sumarið er ekki hálfnað. Þetta átti að duga mér til áramóta.“