*

mánudagur, 25. október 2021
Innlent 14. apríl 2020 18:40

Meiri samdráttur en í Kreppunni miklu

AGS spáir að hagkerfi heimsins dragist saman um 3% á árinu, en 7,2% hér á landi. Spá tvöfalt meira atvinnuleysi en Seðlabankinn.

Ritstjórn
Gita Gopinath er aðalhagfræðingur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
epa

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn telur að á árinu muni hagkerfi heimsins fara í gegnum verstu fjármálakreppuna síðan í Kreppunni miklu sem hófst í lok árs 1929 í Bandaríkjunum og dreifðist út um hagkerfi heims áratuginn á eftir.

Þannig dragist hagkerfi heimsins saman um 3% á árinu 2020, sem er nánast spegilmynd þess 3,3% hagvaxtar sem sjóðurinn spáði í janúar fyrir árið. Þannig verði kreppan nú mun dýpri en í fjármálakreppunni fyrir áratug síðan.

Konráð S. Guðjónsson hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands bendir á í tísti sínu á samfélagsmiðlinum Twitter að sjóðurinn spái því að í ár verði samdrátt landsframleiðslu hér á landi 7,2%, á föstu verðlagi og 8,9% á mann, sem sé mesti samdráttur í heila öld, og því fylgi 8% atvinnuleysi.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um taldi Konráð sviðsmynd Seðlabanka Íslands óhóflega bjartsýna, en þar er gert ráð fyrir 7% atvinnuleysi og 3,8% samdrátt í hagkerfinu í svartsýnni sviðsmynd bankans. Í spá AGS er gert ráð fyrir 5,9% samdrætti í Bandaríkjunum í ár og 7,5% samdrætti á evrusvæðinu, en hins vegar 1,2% hagvexti í Kína.

Heimsviðskipti dregist saman um allt að þriðjung

Haft er eftir Gita Gopinath, aðalhagfræðingi AGS á CNBC að hún telji að hagkerfið nái sér að hluta til aftur á næsta ári en mikil óvissa sé um hversu fljótt það nái sér aftur á strik. Stjórnvöld og seðlabankar víða um heim hafa gripið til víðtækra aðgerða til að reyna að bregðast við niðursveiflunni, en gagnrýnisraddir telja ekki nóg að gert hér á landi.

Í síðustu viku sagði Alþjóðaviðskiptastofnunin (WTO) að heimsviðskipti gætu dregist saman um á milli 13% upp í 32% á árinu, og OECD hefur varað við því að afleiðingar veirufaraldursins gætu varað til langs tíma.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kallar ástandið nú „Lokunina miklu“ og segir hana ólíka öllu öðru sem núlifandi fólk hafi upplifað. Þannig hafi 90 aðildarríki af 189 að sjóðnum óskað eftir fjárhagsaðstoð nú, en sjóðurinn getur lánað andvirði 1.000 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur 142,5 milljörðum íslenskra króna.