Samdrátturinn í Bretlandi er meiri en áður hafði verið talið, samkvæmt nýjum tölum bresku hagstofunnar sem FT segir frá í dag.

Landsframleiðslan dróst saman um 0,6% frá öðrum til þriðja ársfjórðungs, sem er mesti samdráttur á milli fjórðunga frá árinu 1990. Fyrra mat hafði verið samdráttur upp á 0,5% og hagfræðingar höfðu ekki gert ráð fyrir breytingum þar á.

Pundið hefur lækkað og færst nær evrunni að undanförnu og þessar nýju tölur settu enn frekari þrýsting á það. Pundið lækkaði um 0,5% gagnvart evrunni í dag og gengið á evrunni er nú 0,9449 pund.