Landsframleiðsla dróst saman að raungildi um 6,8% samkvæmt endurskoðuðum tölum Hagstofunnar yfir þjóðhagsreikninga á árinu 2009. Í áætlun frá því í mars síðastliðnum var talið að samdrátturinn á árinu 2009 hafi numið 6,5%. Seðlabankinn spáir að hagkerfið muni ekki vaxa milli ára fyrr en á þriðja ársfjórðungi 2010.

Samdrátturinn í fyrra varð eftir samfelldan hagvöxt frá og með árinu 1993 og er samdrátturinn sá mesti sem mælst hefur frá því að gerð þjóðhagsreikninga hófst á Íslandi árið 1945. Hagvöxtur á árinu 2008 er talinn hafa numið 1%.

Í fundargerð peningastefnunefndar fyrir stýrivaxtaákvörðun 18. ágúst síðastliðinn, sem gerð var opinber í byrjun september, segir að samkvæmt spá í Peningamálum sé gert ráð fyrir 1,9% samdrætti vergrar landsframleiðslu árið 2010. Spáð er að verg landsframleiðsla aukist aftur milli ára á þriðja ársfjórðungi 2010, í fyrsta sinn frá því á öðrum ársfjórðungi 2008.

Slakari hagvaxtarhorfur

Í Peningamálum í ágúst kemur fram að  hagvaxtarhorfur fyrir næstu tvö ár séu heldur slakari en spáð var í maí. Nú sé gert ráð fyrir 2,4% hagvexti á árinu 2011, í stað 3,4% vaxtar í maíspánni, og 1,7% hagvexti 2012 samanborið við 1,9% vöxt í maíspánni. Minni vöxtur innlendrar eftirspurnar á árinu 2011 og veikari útflutningur árið 2012 vegna tafa á stóriðjufjárfestingu eru sagðar skýra þessar breytingar að mestu leyti.