Landsframleiðsla á Spáni dróst saman um 0,7% á fjórða ársfjórðungi frá því sem var í fjórðungnum á undan. Samkvæmt bráðabirgðatölum spænsku hagstofunnar var landsframleiðsla Spánar árið 2012 1,37% minni en árið 2011. Samdrátturinn á fjórða ársfjórðungi var meiri en spænski seðlabankinn hafði spáð fyrir um, en hann gerði ráð fyrir 0,6% samdrætti. Þá var hann mun meiri en á þriðja fjórðungi 2012 þegar hann var 0,3%.

Segir í frétt Wall Street Journal að áhrif hagræðingaraðgerða spænsku stjórnarinnar á hagkerfið hafi komið inn í tölurnar af fullum þunga á fjórða fjórðungnum og skýri verri stöðu hagkerfisins. Hækkun á virðisaukaskatti tók gildi í september og varð til þess að einkaneysla varð enn veikari en hún var fyrir. Var smásala í desember t.d. 10,7% minni en árið 2011.

Spænska ríkisstjórnin situr nú undir mjög miklum þrýstingi frá Evrópusambandinu og frá eigendum spænskra ríkisskuldabréfa um að minnka hallan á fjárlögum, sem var 9% af vergri landsframleiðslu árið 2011.