Samanlagður hagnaður Kviku banka hf., TM hf. og Lykils fjármögnunar hf. var um 2,5 milljarðar króna fyrir skatt. Þar af var hagnaður Kviku fyrir skatt um milljarður en hagnaður TM og Lykils 1,5 milljarður sem er næst besti árangur TM frá því að félagið var skráð í kauphöllina árið 2013. Þá hefur félagið náð fram meiri samlegð við samrunann en áætlað var. Þetta kemur fram í árshlutareikningi Kviku fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins 2021.

Hagnaður Kviku á fjórðungnum var 869 milljónir eftir skatt úr 336 milljónum fyrir sama tímabil árið 2020. Vert er að hafa í huga að þar sem samruninn átti sér stað í lok mars er rekstur TM og Lykils ekki hluti af ársreikningi samstæðunnar. Afkoma TM og Lykils fyrir skatt á ársfjórðungnum er hins vegar hluti af eigin fé félaganna sem rennur inn í efnahag Kviku banka hf. og er því hluti af efnahag samstæðunnar í lok fjórðungsins.

Sjá einnig: Samþykkja samruna Kviku og TM

Rekstrartekjur félagsins námu 2,7 milljörðum og þar af voru hreinar vaxtatekjur um 634 milljónir. Hagnaður á hlut var 0,40 krónur á tímabilinu en hann var 0,17 krónur í fyrra. Heildareignir félagsins námu 260 milljörðum króna og þar af var eigið fé samstæðunnar um 70 milljarðar króna.

Samlegðaráhrifin meiri en áætlað var

Sameiginlega fyrirtækið er á undan áætlun með að ná fram samlegðaráhrifum en þau námu um 270 milljónum króna á fjórðungnum en gert var ráð fyrir samlegðaráhrifum fyrir um 200-350 milljónum króna á árinu. Einskiptiskostnaður við samrunann nam 140 milljónum á fjórðungnum.

Félagið var stórtækt í byrjun árs en auk samrunans við TM keypti félagið fjártæknifyrirtækin Aur fyrir 458 milljónir og 80% hlut í Netgíró 325 milljónir.

"Samstæðan er fjárhagslega sterk með góðan rekstur sem hvílir á mörgum stoðum. Mikil tækifæri felast í því að auka markaðshlutdeild félagsins. Það er ekki algengt að fjárhagslega sterkt félag hafi litla markaðshlutdeild í flestum þjónustuþáttum og í því felast margvísleg tækifæri til vaxtar. Unnið er að undirbúningi útvíkkunar þjónustu fyrir einstaklinga og ég vænti þess að viðskiptavinir félagsins muni upplifa að samkeppni aukist á fjármálamarkaði. Vel gengur að ná markmiðum um kostnaðarhagræði í kjölfar samrunans og mun það væntanlega að mestu koma fram með hagkvæmari fjármögnun. Fjármögnunarkjör bankans hafa aldrei verið betri en í síðasta skuldabréfaútboði,"  segir Marínó Örn Tryggvason, framkvæmdastjóri Kviku.