Takumi er íslensk-breskt sprotafyrirtæki sem byggir á þeirri einföldu hugmynd að tengja saman fólk sem miðlar myndum á Instagram og fyrirtæki sem vilja auglýsa gegnum þetta fólk.

Forritið er ofureinfalt í notkun. Sértu með 1.000 fylgjendur á Instagram geturðu skráð þig sem auglýsandi. Því næst skráirðu bankareikninginn þinn við að­ ganginn og þá ertu öllum vopnum búinn til að byrja að taka myndir.

Takumi lofar notendum sínum lágmarksupphæð sem nemur 40 sterlingspundum eða 8.000 krónum fyrir hverja mynd. Jökull Sólberg Auðunsson, með­ stofnandi og vörustjóri fyrirtækisins, segir að hægt sé að beisla mikinn sköpunarkraft á Instagram sem hefur verið ósnortinn til þessa.

Tækifæri í erfiðleikum

Jökull er einn fjögurra stofnenda Takumi. Með honum í slagtogi eru Guðmundur Eggertsson, Mats Stigzelius og Dom Perks. Auk þessara fjögurra stofnenda starfa nú í kringum 15-20 manns hjá fyrirtækinu, jafnt á Íslandi sem í London.

Jökull starfaði áður hjá Plain Vanilla, en hann var með fyrstu starfsmönnum fyrirtækisins. Þar vann hann sem forritari og síðar sem yfirmaður vöruþróunar. Jökull sagði skilið við Plain Vanilla og ákvað að stofna eigið fyrirtæki. Hann hafði áður starfað á auglýsingastofum auk þess sem hann vann náið að tjaldabaki með ritstjórn veftímaritsins Blævar, sem gerði tilraunir með innfelldar auglýsingar.

„Fólk meðtekur rétt rúmar 500 mínútur af stafrænu efni á hverjum degi,“ segir Jökull. „Neysla á margmiðlun hefur aldrei verið jafn mikil og auk þess er dreifingin fríkeypis. Maður hefði haldið að þetta væru góðar fréttir fyrir auglýsendur, en staðreyndin er sú að það getur verið erfitt að græða á auglýsingum. Þetta finnst okkur vera gullið tækifæri.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .