*

þriðjudagur, 27. júlí 2021
Innlent 4. nóvember 2004 11:57

Meiri stóriðja á leiðinni

Ritstjórn

Ákveðið hefur verið að auka fyrirhugaða stækkun álverkssmiðju á Grundartanga um 40 þúsund tonn. Stækkunin sem áætlað er að ljúki fyrir lok árs 2006 verður því 130 þúsund tonn í stað 90 þúsund tonna. Með þessu verður framleiðslugeta álversins 220 þúsund tonn í lok árs 2006. Kom þetta fram í tilkynningu frá Norðuráli í gær. Vegna þessarar viðbótarstækkunnar álvesins mun Hitaveita Suðurnesja auka raforkusölu sína til fyrirtækisins um 54 MW og mun það nægja fyrir stækkun upp í 212 þúsund tonn. Enn er ósamið um orku og orkuflutninga þeirra 8 þúsund tonna sem upp á vantar.

Heildarkostnaður við virkjanir og álverið sjálft vegna fyrstu 90 þúsund tonna aukningarinnar var áætlaður tæplega 50 ma.kr. og var reiknað með að 800 störf myndu skapast á uppbyggingartíma. Ljóst er að með stækkun um 130 þúsund tonn skapast enn fleiri störf og að kostnaður verður meiri með tilheyrandi áhrifum á efnahagslífið. Kostnaður við viðbótina um losa um 10 ma.kr. þannig að heildarkostnaður við verkið fer upp í 60 ma.kr.

Heildarfjárfesting vegna virkjunar- og álversframkvæmda á landinu öllu, þ.e. vegna stækkunnar Norðuráls, álvers Alcoa á Austurlandi og tengdra virkjunarframkvæmda, á næstu tveimur árum er við þetta að fara úr tæplega 140 mö.kr. upp í tæplega 150 ma.kr. Reikna má með því að um 40% af þessum kostnaði verður innlendur. Umrædd viðbótarstækkun Norðuráls er því að bæta við framkvæmdir sem fyrir var ljóst að yrðu mjög miklar á næstu tveimur árum. Áhrif á markaðinum hafa m.a. verið þau í morgun að gengi krónunnar hefur hækkað um 0,24% eins og kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka.