Um 52% landsmanna vilja hafa nýjan Landspítala við Vífilstaði, 39% við Hringbraut og 9% annars staðar. Kemur þetta fram í nýrri könnun sem gerð var af Gallup fyrir Samtök um betri spítala á betri stað. Samtals vilja því 61% landsmanna hafa spítalann annars staðar en á Hringbraut. Eru niðurstöður þessarar könnunar afar svipaðar þeim sem komu úr nýlegri könnun Viðskiptablaðsins , sem greint var frá fyrr í mánuðinum.

Rétt eins og í þeirri könnun er stuðningur við Vífilsstaðalausnina mestur hjá íbúum nágrannasveitarfélaga Reykjavíkur, en alls vilja 62% þeirra hafa spítalann á Vífilsstöðum. Þó er meirihluti Reykvíkinga, eða 52%, á sömu skoðun. Stuðningur við Vífilsstaðalausnina er einnig mestur hjá stuðningsmönnum Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks og hjá óákveðnum, en minnstur hjá stuðningsmönnum Samfylkingar og Vinstri-grænna.

Auk Vífilsstaða og Hringbrautar var einnig spurt um mögulega staðsetningu spítalans í Fossvogi, við Keldnaholt, Við ósa Elliðaár og á Ártúnshöfða.