Mun meiri þátttaka var í víxlaútboði Lánamála ríkisins í gær en verið hefur að undanförnu, að því er segir í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka. Þannig bárust alls tilboð að fjárhæð 15.400 milljónir króna í þá tvo víxlaflokka sem í boði voru, sem er að mati Greiningarinnar dágóð fjárhæð í ljósi þess að víxlar upp á einungis 5.239 milljónir eru á gjalddaga í mánuðinum. Líkt og oftast var meiri eftirspurn eftir styttri víxlinum en þeim lengri.

Þannig bárust alls tilboð að fjárhæð 9.480 milljónir í 3ja mánaða víxilinn, og var þeim tekið fyrir 9.330 milljónir króna á 3,20% flötum vöxtum. Þá bárust alls tilboð fyrir 5.920 milljónir króna í 6 mánaða víxlaflokkinn og var þeim tekið fyrir 5.080 milljónir á 3,40% flötum vöxtum. Lánakjör ríkissjóðs versnuðu aðeins frá útboðinu í febrúar, en þá voru flatir vextir 10 punktum lægri á báðum víxlunum en þeir voru í gær.

Þar sem heildarfjárhæð seldra víxla í útboðinu í gær var talsvert yfir fjárhæð þeirra víxla sem eru á gjalddaga í mánuðinum hækkaði staða útistandandi ríkisvíxla þó nokkuð, eða úr 24.455 milljónum upp í 33.626 milljónir Er þetta í fyrsta sinn sem síðan í október í fyrra sem fjárhæð útistandandi víxla hækkar á milli mánaða.