Meiri velta var á First North hlutabréfamarkaðnum í Kauphöllinni heldur en aðalmarkaði, sem er afar sjaldgæft. Velta á First North var 1.506.323.415 kr., borið saman við 566.534.361 kr. á aðalmarkaði, sem er heldur lítið. Athygli vekur að öll velta á First North var í einum viðskiptum með bréf í Hampiðjunni en í 73 viðskiptum í heildina á aðalmarkaði.

Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,80% innan dags en aðalvísitala skuldabréfa hækkaði um 0,15%. Velta með skuldabréf nam 5.046.109.925 krónum í 43 viðskiptum.

Mest hækkun á aðallista var hjá Icelandair Group, eða um 1,42% í 24 viðskiptum sem veltu 234.982.037 krónum. Næst mest var hækkun hjá Högum, eða um 1,27%. Það var þó einungis í tveimur viðskiptum þar sem veltan nam 2.029.500 kr.

Mest lækkun var með bréf Regins, eða um 0,90% í fjórum viðskiptum sem veltu 23.432.025 kr. Næst mest lækkun var hjá TM, en bréfin lækkuðu um 0,48%. Veltan nam 1.454.049 kr. í tveimur viðskiptum.