Það voru fleiri rauðar tölur en grænar á aðalmarkaði kauphallarinnar í dag, til að mynda lækkaði OMXI10 vísitalan um 1,14%. Í annað skiptið á stuttum tíma var meiri velta á skuldabréfamarkaði heldur en hlutabréfamegin.

Fimm félög hækkuðu í viðskiptum dagsins en samanlögð velta þeirra var rúmlega 340 milljónir króna. Mest var hækkunin hjá Icelandair, 1,85% í 188 milljón króna viðskiptum, en næst kom Origo með 1,41% í 95 milljón króna viðskiptum. Brim hækkaði einnig um rúmt prósent og námu viðskipti 27 milljónum. Þá hækkaði Iceland Seafood um 0,31% í 33 milljóna viðskiptum og 850 þúsund krónur nægðu til að hífa Eimskip upp um 0,24%.

Fyrir lækkuninni fóru bankarnir tveir, Kvika og Arion banki. Gengi bréfa fyrrnefnda bankans lækkaði um 2,12%, magnið var 274 milljón krónur, en Arion lækkaði um 1,94%. Mesta magnið var með bréf hans eða 380 milljónir króna. Þá lækkaði Síminn um 1,92%. Marel og Hagar lækkuðu um rétt rúmt prósent og þá lækkuðu Reitir, Sjóvá og Vís um á bilinu 0,6-0,9%. Önnur félög stóðu í stað.

Samanlögð velta félaganna nam 2,4 milljörðum króna en viðskipti með skráð skuldabréf voru ríflega þrefalt umfangsmeiri eða 7,7 milljarðar króna.