Þó meirihluti innflutnings til Íslands fari fram í evrum er Bandaríkjadalur stærsta einstaka viðskiptamynt landsins með tvöfalt meiri útflutningsverðmæta landsins en evran.

Samt sem áður eru langstærsti hluti utanríkisviðskipta landsins við ríki Evrópu, eða um 80% útflutnings og tveir þriðju innflutningsins, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Utanríkisráðuneytisins sem Morgunblaðið segir frá.

Samkvæmt skýrslunni eru vísbendingar um að áherslan í utanríkisviðskiptunum sé hins vegar að færast frá Vesturlöndum og að ESB aðild myndi því hækka vöruverð innanlands. Ísland er með fríverslunarsamband við 74 ríki sem stendur, en um 86% af heildarvöruútflutningi landsins fara til þeirra ríkja, en hlutfallið er 74% í útflutningi á bæði vöru og þjónustu.

Með gildistöku fríverslunar EFTA ríkjanna við Mercosur ríki Suður Ameríku munu bætast við 3 ríki og nær þá fríverslunin til 3,4 milljarða manna, en með fullnustu fríverslunarsamninga við þrjú ríki til viðbótar, Indland, Malasíu og Víetnam mun 1,5 milljarður bætast við til viðbótar.

Tæplega 71% af útflutningi Íslands, þá miðað við tölur ársins 2019 þegar Bretland var enn hluti af innri markaði sambandsins, voru til ríkja Evrópusambandsins, en án eyríkisins nemur hlutfallið til þeirra 60,5%.

Viðskiptin fara fram í gegnum Holland

Þar af er Holland stærsta einstaka viðskiptalandið, sem kemur til vegna mikils umfangs Rotterdamhafnar í utanríkisviðskiptum Íslands, en upprunaland vörunnar geti verið allt annars staðar í álfunni og eða heiminum. Bretland er svo næst stærst.

Rétt rúmlega helmingur tekna Íslendinga af útflutningi þjónustu komu frá Evrópuríkjum sem og um þrír fjórðu hlutar innflutnings á þjónustu. Um þriðjungur útflutningsins fór til ESB ríkja, utan Bretlands, sem stóð undir tæplega 12% eitt og sér, en Bandaríkin voru stærsta einstak ríkið, með 29,7%.