Jón Ásgeir Jóhannesson segir að Íslendingar verði að bæta sig þegar kemur að ímynd landsins gagnvart erlendum fjárfestum.

Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Baugs, telur að fjármálakreppa sú sem nú gengur yfir heiminn sé miklu dýpri en margir á Íslandi geri sér grein fyrir. Því hafi hann kosið að tala tæpitungulaust um það í hádegisviðtali Stöðvar 2 í gær í stað þess að láta umræðuefnið vera bundið við bakherbergi.

Spurður um þau ummæli sem hann lét þar falla um íslensku bankana segist hann ekki hafa verið að ræða um fjárhagsstöðu þeirra þegar hann sagði að staðan á bankamarkaði væri miklu verri en menn hefðu verið að tala um á Íslandi. „Við Íslendingar glímum við eitthvert meiriháttar ímyndarvandamál. Ég tel að það sé ósanngjarnt álag.“