Samkvæmt skýrslunni World Economic Outlook, sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) gefur út, mun fjármálakreppan valda meiriháttar samdrætti í hagvexti í alþjóðahagkerfinu á næstu árum.

Enginn hagvöxtur verður í mörgum þróuðustu hagkerfum heims fram á mitt næsta ár.

Skýrslan er gefin út tveimur dögum áður en ársfundur IMF og Alþjóðabankans fer fram í Washington.

Í henni kemur fram það mat að hagvaxtarhorfur séu að dökkna hratt og verulega vegna fjármálakreppunnar.

Fullyrt er að mörg af þróuðustu hagkerfunum rambi á barmi samdráttarskeiðs, hafi þau ekki nú þegar runnið inn í það.

Jafnframt kemur fram að nú dragi einnig úr hagvexti í nýmarkaðsríkjum en samt sem áður er því spáð að þau muni þó draga vagninn áfram þegar kemur að þeim litla vexti sem spáð er næstu árin. Búist er við að vöxtur alþjóðahagkerfisins verði 3% eða 0,9% minni en sjóðurinn spáði í sumar.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .