Þing var sett á Spáni í dag, en meirihlutaviðræður standa ennþá yfir með takmörkuðum árangri.

Núverandi forsætisráðherra Spánar, Mariano Rajoy, er leiðtogi Íhaldsflokks Spánar, en hann fékk flest atkvæði í kosningunum sem haldnar voru þann 20. desember sl. Hann hefur óskað eftir því að Sósíalistaflokkurinn, sem var næst stærsti flokkurinn í kosningunum, muni skipa ríkisstjórn með Íhaldsflokknum. Sósíalistar hafa hingað til hafnað stjórnarmyndunartilraunum Rajoy þrátt fyrir að ólíklegt sé að flokkurinn geti myndað stöðugan meirihluta með öðrum flokkum.

Meðal nýrra flokka á þinginu eru miðjuflokkurinn Ciudadanos og vinstri flokkurinn Podemos, sem hefur barist harðlega gegn auknum niðurskurði í ríkisfjármálum. Stóru flokkarnir tveir, Sósíalista- og Íhaldsflokkurinn, fengu þó lang flest þingsæti í kosningunum.

Rajoy hefur fundað með öllum leiðtogum hinna þriggja flokkana á síðustu vikum, en einungis Ciudadanos hefur lýst yfir vilja til að mynda ríkisstjórn með flokknum.

Ummæli nýs forseta Katalóníu-héraðs um að þeir vilji stefna að sjálfstæði innan 18 mánaða hafa flækt málin enn frekar. Andstæðingar sjálfstæðis Katalóniu segja þörf á sterkri ríkisstjórn með sterkan þingmeirihluta til að halda aftur af sjálfstæðistilraunum Katalóníu.