Neysla á íslensku skyri er mun meiri á hinum Norðurlöndunum en hér. Hún hefur stóraukist ytra á milli ára, sem dæmi tvöfalt meiri nú í Finnlandi en í fyrra. Einar Sigurðsson, forstjóri Mjólkursamsölunnar (MS), segir í samtali við Fréttablaðið í dag að framleiðslan nemi 36 milljónum dósa árlega. Af þeim neyti Íslendingar 11,5 milljóna en tveir þriðju hlutar séu borðaðir í hinum Norðurlöndunum. Hann býst við að á þessu ári verði þangað seld á bilinu 4.300 til 4.500 tonn af skyri.

Einar bendir á að MS sé með 380 tonna tollfrjálsan kvóta inn í Evrópusambandið og sé fyrirtækið löngu búið að sprengja hann. Í Danmörku og í Noregi sé því framleitt skyr með leyfi og undir eftirliti frá MS.

Ástæðan fyrir auknum áhuga á hinum Norðurlöndunum á skyri telur hann vera breyttan lífsstíl og meiri ásókn í próteinríkar vörur.