Saksóknari Alþingis kappkostaði um of að sýna fram á brot formreglu af hálfu Geirs H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Þetta segir í skýrslu Laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins um hvenær sé réttlætanlegt að láta stjórnmálamenn sæta refisábyrgð. Fjallað er um málið á vef Ríkisútvarpsins .

Mannréttindanefndin hefur birt drög að skýrslu um hvenær sé réttlætanlegt að draga pólitískt kjörna fulltrúa fyrir dómstóla og láta þá sæta refsiábyrgð, í stað þess að þeir axli ábyrgð á gjörðum sínum í almennum kosningum. Niðurstaða nefndarinnar er að refisábyrgð fyrir dómstólum eigi aðeins að koma til greina í mjög alvarlegum tilfellum, s.s. þegar stjórnmálamaður hefur orðið uppvís að spillingu eða fjárdrætti.

Í skýrslunni er fjallað um nokkur mál og er niðurstaðan hvað mál Geirs varðar að það sé ekki í samræmi við sýn nefndarinnar á refsiábyrgð pólitískt kjörinna fulltrúa. Nefndin dregur jafnframt þá ályktun að tilgangur meirihluta Alþingis virðist hafa verið að refisivæða val forvera sinna á þeirri frjálslyndu efnahagsstefnu sem stuðlaði að vexti og falli íslensku bankanna.