Um 70% landsmanna telja að það hafi verið röng ákvörðun að hækka skatta á einstaklinga um síðustu áramót. Þá telja um 60% að hækkun skatta á fyrirtæki hafi einnig verið röng ákvörðun. Þetta er niðurstaða könnunar sem MMR vann fyrir Viðskiptablaðið.

Spurt var: „Telur þú að ríkisstjórnin hafi gert rétt eða rangt í því að hækka skatta á eftirfarandi aðila um seinustu áramót?“ og var þá vísað annars vegar til einstaklinga og hins vegar til fyrirtækja.

Fleiri konur, eða 73% kvenna, telja að það hafi verið röng ákvörðun að hækka skatta á einstaklinga á meðan rúmlega 67% karla eru á sömu skoðun. Nær enginn munur er á íbúum höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar. Þá telja færri konur að það hafi verið röng ákvörðun að hækka skatta á fyrirtæki, eða 57%, og um 64% karla. 63% íbúa á landsbyggðinni telja það jafnframt vera ranga ákvörðun á meðan 58% íbúa á höfuðborgarsvæðinu telja það ranga ákvörðun að hækka skatta á fyrirtæki.

Lágtekjuhópar á móti

Athygli vekur að flestir þeirra sem ekki eru útivinnandi telja það ranga ákvörðun að hækka skatta á einstaklinga, eða um 88%. Þá telur stærstur hluti þjónustu- og afgreiðslufólks (83,6%), iðnaðarmanna (80,2%) og vélafólks og ófaglærðra (75%) það ranga ákvörðun að hækka skatta á einstaklinga. Lægst er hlutfallið á meðal sérfræðinga (51,5%). Þá telja 67% stjórnenda það rangt að hækka skatta á einstaklinga.

Þegar litið er til menntunar eru fæstir á meðal þeirra sem lokið hafa grunnháskólanámi (55) sem telja ákvörðunina ranga. Flestir þeirra sem lokið hafa lengri háskólamenntun (tæp 85%) telja ákvörðunina ranga og um 80% þeirra sem lokið hafa grunnskólaprófi. Þá vekur einnig athygli að hátt hlutfall þeirra sem hafa undir 250 þús. kr. í mánaðarlaun, eða 78%, telur það ranga ákvörðun að hækka skatta á einstaklinga. Hjá þeim sem eru með tekjur á bilinu 250 - 799 þús.kr. eru 64- 68% á móti skattakækkunum en þá telur um 71% þeirra sem hafa yfir 800 þús. kr. á mánuði það ranga ákvörðun að hafa hækkað skatta.