*

mánudagur, 25. janúar 2021
Innlent 2. apríl 2020 07:01

Meirihluti arðsins fór til fólksins

Forstjóri Bláa lónsins segir að um 65% arðgreiðslu síðasta árs hafi farið til fólksins í formi skatta og greiðslna til lífeyrissjóða.

Trausti Hafliðason
Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins.
Haraldur Guðjónsson

Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins, segist aldrei hafa upplifa aðrar eins hremmingar og nú gangi yfir vegna heimsfaraldursins. Í viðtali í Viðskiptablaðinu í dag svarar hann meðal annars fyrir þá gagnrýni sem forvarsmenn Bláa lónsins hafa fengið fyrir að hafa farið hlutabótaleiðina.

Í febrúar störfuðu 764 hjá Bláa lóninu. Í síðustu viku barst tilkynning frá félaginu um að 164 hefði verið sagt upp og að af þeim 600 starfsmönnum sem eftir væru hefðu rúmlega 400 verið boðið að fara í hlutastarf og fá á móti hlutabætur frá Atvinnuleysistryggingasjóði. Eru hlutabæturnar ein af aðgerðum stjórnvalda til að koma til móts við launþega og atvinnurekendur vegna heimsfaraldursins. Útfærslan er þannig að starfsmaður heldur fullum launum upp á 400 þúsund krónum og fær eftir það greiddar tekjutengdar atvinnuleysisbætur í hlutfalli við hið skerta starfshlutfall en þó að hámarki 90% af launum upp á 700 þúsund.

Spurður hvers vegna hafi verið farið í þennan mikla niðurskurð svarar Grímur: „Í ljósi fordæmalausra aðstæðna og fullkominnar óvissu með framhaldið þurftum við að sjá á eftir góðu samstarfsfólki í síðustu viku. Svona aðgerðir eru að sjálfsögðu mjög sársaukafullar og eitthvað sem maður vill helst af öllu komast hjá en það er ábyrgt að bregðast við í stað þess að fresta vandanum að mínu mati.

Með þessum aðgerðum erum við fyrst og fremst að freista þess að verja þau 600 störf sem eftir eru í fyrirtækinu. Það segir sig sjálft, þegar tekjur eru engar og fullkomin óvissa með framhaldið þarf að bregðast við. Það er alveg ljóst að án úrræðis ríkisstjórnarinnar hefðu uppsagnirnar þurft að vera fleiri og þannig ennþá sársaukafyllri.“

Reiknar með 50% samdrætti

„Með þeim aðgerðum sem við höfum þegar gripið til ætlum við að tryggja starfshæfni félagsins að fullu í gegnum þetta óvissuástand, sem því miður mun að líkindum vara fram á næsta ár. Sú sviðsmynd sem við erum að vinna með núna er svipuð og dekkri sviðsmynd Seðlabankans, sem kynnt var í síðustu viku. Samkvæmt henni værum við að horfa á svipaðan fjölda gesta koma í Bláa Lónið eins og árið 2013 og tekjur okkar á þessu ári verði í það minnsta 50% minni en áætlanir okkar gerðu ráð fyrir.“

Arðgreiðslur og hlutabætur

Þessi aðgerð hefur verið gagnrýnd og sett í samhengi við arðgreiðslur undangenginna ára, sem dæmi þá var greiddur um 30 milljóna evra arður til eigenda í fyrra vegna rekstrarársins 2018. Hvernig svararðu þessari gagnrýni, er réttlætanlegt að nýta hlutastarfaleiðina í ljósi arðgreiðslnanna?

„Í gagnrýninni felst það viðhorf að fyrirtæki, sem hafa sýnt ráðdeild og hugað að því að hafa sterkan efnahag og lausafjárstöðu, eigi að meðhöndlast með einhverjum öðrum hætti af stjórnvöldum við þessar fordæmalausu aðstæður en þau fyrirtæki sem ekki hafa hugað nægjanlega vel að þessum þáttum í sinni starfsemi. Ég er algjörlega ósammála því viðhorfi. Við verjum þannig störf í samstarfi við stjórnvöld.  Í þessu samhengi má nefna að stór hluti starfsmanna okkar sem nú eru í hlutastarfi hafa lítil sem engin verkefni á meðan á lokun stendur.

Það er mikilvægt að halda því til haga að umrætt úrræði er beint mótframlag Atvinnuleysistryggingasjóðs til launþega, ekki er um að ræða greiðslu eða styrk til atvinnurekenda.  Atvinnurekandinn greiðir full laun í samræmi við starfshlutfall en launþegar geta sótt á móti um bætur til sjóðsins vegnar skerðingar þess. Með þessu er verið að vernda ráðningarsambandið milli launþega og vinnuveitenda eins og frekast er unnt. Þetta úrræði hefur þegar sannað gildi sitt eins og tölur Vinnumálastofnunar sýna.

Ég vil að það komi skýrt fram að Bláa Lónið mun ekki nýta þau úrræði ríkisstjórnarinnar sem snúa beint að fyrirtækjunum.“

Arðgreiðslur ekki inni í myndinni

„Bláa Lónið hefur verið vel rekið fyrirtæki og getað greitt arð síðustu ár, sem að mínu mati er jákvætt og á að vera jákvætt. Það eru jú einkafyrirtækin í landinu sem afla teknanna, greiða skattana og skapa fólkinu störfin. Hvað varðar umrædda arðgreiðslu er rétt að halda því til haga að um 65% af henni, sem greidd var út í fyrra, fór til fólksins í landinu í formi fjármagnstekjuskatts og greiðslna til lífeyrissjóða, sem eiga óbeint tæplega helming hlutafjár í fyrirtækinu.  Það er þó alveg klárt mál að það kemur ekki til greina að greiddur verði út arður úr Bláa Lóninu á þessu ári í ljósi þeirrar stöðu sem nú er komin upp í rekstrarumhverfinu. Það væri bæði óábyrgt og ekki í samræmi við gott viðskiptasiðferði.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér