*

mánudagur, 14. júní 2021
Innlent 7. maí 2018 12:43

Meirihluti búa einir eða án barna

Íbúðum þarf að fjölga umfram íbúa vegna minnkandi fjölskyldustærða, hækkandi aldurssamsetningar auk fjölda innflytjenda.

Ritstjórn
Nýjar íbúðir við íþróttasvæði Vals á Hlíðarenda eru meðal þeirra sem sífellt ólíklegra er að hýsi stórar fjölskyldur samkvæmt lýðfræðilegri þróun þjóðarinnar.
Aðsend mynd

Flestar spár um fjölgun íbúða í löndunum kringum Ísland ganga út á að sú fjölgun verði hraðari en íbúafjölgunin sjálf vegna breyttra heimilisaðstæðna fólks segir í nýlegri greiningu Samtaka iðnaðarins.

Í dag búa yfir 350 þúsund manns á landinu en heildarfjöldi íbúða er rétt rúmlega 138 þúsund, svo að nú búa um 2,5 íbúar í hverri íbúð, en það hlutfall hefur farið lækkandi jafnt og þétt víðast hvar um hinn vestræna heim.

Ef hlutfallið væri hins vegar eins og meðaltalið er komið niður á hinum Norðurlöndunum þyrftu íbúðirnar að vera ríflega 174 þúsund. Það er við þyrftum að bæta við ríflega 38 þúsund íbúðum miðað við núverandi fólksfjölda.

Tæplega 4.100 íbúðir í byggingu

Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá voru í heildina um 4 þúsund íbúðir í byggingu í marsmánuði síðastliðnum, eða nánar tiltekið 4.093 íbúðir samkvæmt könnun Samtaka iðnaðarins.

Benda samtökin á að þó Ísland sé ekki langt á veg komin í þeirri þróun sem hefur átt sér stað víðast hvar í hinum vestræna heimi, þar sem lækkandi fæðingartíðni, hækkandi meðalaldur og fleiri þættir hafa aukið þörfina á minni íbúðum, séum við þó að feta þá sömu braut.

Meirihlutinn býr einn eða í sambúð án barna

Fjölskyldustærðir hafi minnkað og fleiri búa nú einir eða eru í sambúð án barna. Árið 2001 átti það við um 46% íbúa landsins en nú eru þeir sem þannig háttar á komnir í meirihluta, eða 55%.

Þessu tengd þá flutti metfjöldi erlends vinnuafls til landsins á síðasta ári og fjölgaði íbúum landsins um 10 þúsund, en þar af fluttu 8 þúsund fleiri erlendir ríkisborgarar til landsins en frá því.

Á fyrstu þremur mánuðum ársins fjölgaði svo þjóðinni um 2,1 þúsund og þar af fluttust 1.710 fleiri erlendir ríkisborgarar til landsins heldur en frá því.

Þróunin staðnaði í hruninu

Fjöldi íbúa á hverja íbúð lækkaði samfara fyrrnefndri þróun í fjölskyldustærðum alveg fram að efnahagsáfallinu árið 2008, en síðan þá hefur það eins og sagt var frá áður staðið í stað í 2,5 íbúum á hverja íbúð.

Þar erum við í samanborið við önnur vestræn ríki mitt á milli Bandaríkjanna og Póllands, en á sínum hvorum enda skalans eru Mexíkó og Svíþjóð. Segja samtökin að sú staðreynd að þróunin hafi staðnað þá sýni að fjölgun íbúða hafi alls ekki verið að fylgja eftir lýðfræðilegri þróun síðasta áratuginn.

Mjög lítið byggt frá hruni

Mjög lítið hafi verið byggt á þessu tímabili, eða að jafnaði aðeins tæplega 800 nýjar íbúðir á hverju ári milli áranna 2009 og 2016 en þær hafi síðan náð um tæplega 1.800 á síðasta ári.

Á sama tíma hækkaði meðalaldur þjóðarinnar og hefur hann aldrei verið hærri en í fyrra þegar hann var 38 ár. Ef horft er á aldursbil hefur fjölgunin verið mest hjá þeim sem eru 60 ára og eldri. Þannig fjölgaði í þeim hópi um 63% frá árinu 2000 meðal heildaríbúafjöldi landsins jókst um 25%.