Breska vikuritið The Economist fjallar um aukna bjartsýni og aukinn stuðning við sjálfstæði í Færeyjum samhliða aukinni ferðamennsku og hærra fiskverði. Segja þeir hugrakka ferðamenn með mataráhuga mæta á svæðið til að smakka kæst lamb og lunda fyllta með kökum á sama tíma og þjóðarstolltið eykst meðal íbúanna.

„Við munum koma Færeyjum á kortið,“ vitnar tímaritið í saumakonuna Majbritt Jakobsen sem þarf að sinna síaukinni eftirspurn eftir þjóðbúningum fyrir Ólafsvökuna.

Fólksflóttinn hefur snúist við

Í umfjölluninni er fjallað um að fólksflótti sé ekki lengur jafnmikið vandamál líkt og var árum saman, nú sé fleira fólk sem setjist að á eyjunum en flytji á brott, og íbúarnir séu nú 50 þúsund sem sé met. Þeir séu þó færri en kindurnar sem séu 80 þúsund.

Sjálfstæðissinnar vilji nýta tækifærið en sagt er að eftir nauman sigur þeirra í þjóðaratkvæðagreiðslu skömmu eftir seinni heimsstyrjöldina hafi Danir leist upp þingið og hafnað úrslitunum. Síðan hafi eyjurnar fengið takmarkaða sjálfstjórn en á þeim árum sem liðin eru hafi fjórar tilraunir sjálfstæðissinna til að setja eyjunum eigin stjórnarskrá verið stöðvaðar.

Kosið um ný drög að stjórnarskrá

Í síðasta mánuði kynnti ríkisstjórnin ný drög að stjórnarskrá, sem kosið yrði um í apríl næstkomandi ef áætlanir gangi eftir. Þó stjórnarskrárdrögin gangi ekki jafnlangt og hörðustu sjálfstæðissinnar vilja, segja þeir hana geta verið fyrsta skrefið í rétta átt, en sósíaldemókratar sem einnig sitja í ríkisstjórninni segja hana góða í sjálfu sér.

Vegna hækkandi fiskverðs sé nú efnahagur landsins í blóma, og sé landsframleiðsla á mann nú orðin jafngóð og hér á landi, og meiri en er í Bretlandi. Þetta segja sjálfstæðissinnar réttu aðstæðurnar til að lýsa yfir fullu sjálfstæði.

Efnahagsstuðningur Dana skiptir sífellt minna máli

Færeysk stjórnvöld séu sífellt minna háð dönskum efnahagsstuðningi sem hefur farið úr því að vera 11,2% af vergri landsframleiðslu árið 2000 niður í 3,3% árið 2017, þó upphæðin sé í grunninn sú sama. Vitnað er í fjármálaráðherrann, Kristina Hafoss, sem er sjálfstæðissinni sem kvartar yfir því að danskir ráðherrar sem sinni utanríkismálum fyrir landi berjist ekki fyrir færeyskum hagsmunum í alþjóðaviðræðum. Þeir verji til að mynda ekki hvalveiðar.

Sambandssinnar segja hins vegar hagkerfið of lítið til þess að geta staðið á eigin fótum, á einhverjum tímapunkti muni lækkað verð eða ofveiði valda efnahagslægð. En eftir að hafa sýnt nauman meirihluta sambandssinna í skoðanakönnunum á síðasta ári sýni nýjustu kannanir að meirihluti íbúa vilji að eyjarnar verði sjálfstæðar árið 2035.