Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,77% í 1,1 milljarðs veltu Kauphallarinnar en 11 af 20 félögum hennar lækkuðu í dag. Íslenska krónan veiktist gagnvart öllum helstu gjaldmiðlum heims.

Mesta veltan var með bréf Haga sem lækkuðu um 1% í 259 milljóna króna veltu. Þetta er annar dagurinn í röð sem félagið lækkar en það birti ársfjórðungsuppgjör eftir lokun Kauphallarinnar á mánudaginn. Hagar tilkynntu einnig í gær að Finnur Árnason lauk sínum síðasta starfsdegi í gær og Finnur Oddsson tók formlega við forstjórastarfinu í dag .

TM lækkaði um 1,24% í 140 milljóna króna viðskiptum en Fréttablaðið greindi frá því í morgun um að tryggingafélagið ætti í óformlegum viðræðum við Kviku um mögulegan samruna. Félögin tvö sendu frá sér tilkynningu í morgun þar sem þau neita því að viðræður eigi sér stað og segja að slíkar viðræður séu ekki fyrirhugaðar. Gengi Kviku hélst óbreitt í 196 þúsund króna veltu í dag.

Sjá einnig: OMXI10 hækkaði um 3,4% í júní

Reitir lækkuðu mest allra félaga í Kauphöllinni í dag eða um 1,62% í 28 milljóna króna veltu. Gengi fasteignafélagsins stendur nú í 54,5 krónum á hlut sem er um 25% lægra en í upphafi árs. Arion Banki lækkaði næst mest allra félaga Kauphallarinnar eða um 1,53% í 59 milljóna króna viðskiptum en bréfa bankans stóðu í 67,6 krónum á hlut við lokun markaða.