*

fimmtudagur, 18. júlí 2019
Innlent 1. apríl 2018 13:09

Meirihluti hagnaðar frá útlöndum

Iceland Seafood hefur verið á nokkurri siglingu þrátt fyrir erfiðan fyrri árshluta 2017. Fyrirtækið hefur lagt áherslu á að dreifa áhættu en jafnframt leggja áherslu á lykilmarkaði.

Gunnar Dofri Ólafsson
Helgi Anton Eiríksson, forstjóri Iceland Seafood.
Haraldur Guðjónsson

Árið í fyrra byrjaði auðvitað mjög skringilega, með verkfalli sem dróst mjög á langinn og stóð í níu til tíu vikur,“ segir Helgi Anton Eiríksson, forstjóri Iceland Seafood International. Árið byrjaði því ekki eins og íslenskur fiskiðnaður ætlaði. Fyrirtækinu tókst eftir sem áður að ná góðri niðurstöðu í rekstri á árinu.

„Það sem gerði það að verkum að okkur gekk vel að koma til baka, sérstaklega á seinni hluta ársins með hagnaðaraukningu um 40% miðað við sama tíma árið á undan, er að hluta til að það var meiri fiskur í kerfinu þegar verkfallinu lauk og síðan kom smá kvótaaukning í ákveðnum tegundum í haust,“ segir Helgi Anton.

„Stærsta ástæðan er þó kannski sú að við erum með starfsstöðvar víða erlendis þannig að við erum ekki bara háð íslenskum veruleika og íslenskum sjávarútvegi þó svo það sé kjarninn í því sem við gerum.“ Fyrirtækið er því með eggin í fleiri körfum og í dálítilli útrás. „Þetta félag hefur breyst mikið síðustu árin. Ég hef verið í þessu í 26 ár, byrjaði hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna. Hlutverk þessara fyrirtækja hefur breyst mjög mikið. Í gamla daga voru menn í einu liði og ekki í öðru en í dag eiga menn viðskipti við þann sem veitir bestu lausnir og þjónustu. Til að geta gert það hér heima gengur það út á að vera eins nálægt erlenda kúnnanum og hægt er. Þess vegna höfum við farið í töluverðar fjárfestingar á síðustu árum, bæði inni í okkar félögum og með því að kaupa félög.“

Mikill meirihluti hagnaðar Iceland Seafood verður því til í virðisaukandi verksmiðjum fyrirtækisins erlendis. „Ef við horfum tuttugu ár aftur í tímann þá var þetta félag fyrst og fremst fulltrúi framleiðenda á Íslandi við að koma íslenskum afurðum á markað og hins vegar rekstur á mjög Íslandstengdri starfsemi erlendis.“

Dreifa áhættunni, en ekki of mikið

Helgi Anton segir að fyrir fyrirtæki eins og Iceland Seafood sé mikilvægt að dreifa áhættu og vera ekki háður einni vörutegund eða einum markaði. Hlutirnir geta nefnilega breyst mjög hratt. „Við upplifðum stöðuna með lokun Rússlandsmarkaðar, Brexit og svo framvegis og framvegis. Við viljum samt ekki dreifa okkur um allt heldur vera sterkir á ákveðnum kjarnamörkuðum sem við veljum vel.“

Fyrirtækið hefur lagt meiri áherslu undanfarið á virðisaukandi starfsemi erlendis, meðal annars með kaupum á fyrirtækjum á völdum mörkuðum. „Við rekum núna tvær verksmiðjur í Bretlandi sem við vorum ekki með árið 2010. Við höfum líka styrkt okkar starfsemi á Spáni til viðbótar við verkefnið á Írlandi,“ en fyrirtækið keypti um miðjan mánuðinn 67% hlut í Oceanpath Limited, sem er sagt öflugasta fyrirtækið á írska ferskfiskmarkaðnum. „Á síðustu sex árum höfum við líka stigið út úr ákveðinni starfsemi. Þetta snýst allt um réttar áherslur, rétta fólkið og rétta markaði sem kunna að meta vörur sem koma frá Íslandi og annars staðar,“ segir Helgi Anton.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is