Meirihluti Íslendinga hefur litlar áhyggjur af skotvopnaeign á Íslandi, samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar, sem MMR gerði dagana 15.-20. janúar. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 56,7% hafa litlar áhyggjur af skotvopnaeign á Íslandi, 22,7% höfðu hvorki miklar né litlar áhyggjur og 20,7% höfðu miklar áhyggjur af skotvopnaeign landans. Alls tóku 827 manns á aldrinum 18-67 ára þátt í könnuninni.

Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 66,3% karla hafa litlar áhyggjur af skotvopnaeign á Íslandi en 14,9% sögðust hafa miklar áhyggjur af málefninu. Til samanburðar sögðust 46,8% kvenna hafa litlar áhyggjur af skotvopnaeign á Íslandi og 26,5% sögðust hafa miklar áhyggjur.

Merki MMR.
Merki MMR.

Nokkur munur var á áhyggjum fólks eftir aldri og hækkaði hlutfall þeirra sem höfðu miklar áhyggjur af skotvopnaeign með auknum aldri. Af þeim sem tóku afstöðu sagðist 29,4% elsta aldurshópsins (50-67 ára) hafa miklar áhyggjur af skotvopnaeign á Íslandi, borið saman við 19,1% í aldurshópnum 30-49 ára og 13,9% í yngsta aldurshópnum (18-29 ára).

Fimmtungur hefur aðgang að skotvopnum

Í könnuninni var einnig spurt um aðgengi að skotvopnum. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 20,8% hafa aðgang að skotvopnum og 79,2% sögðust ekki hafa aðgang að skotvopnum.

Aðgengi að skotvopnum er nokkuð breytilegt á milli hópa. Þannig hafa hlutfallslega fleiri karlar aðgang að skotvopnum en konur, aðgengi að skotvopnum eykst með auknum aldri, hlutfallslega fleiri þeirra sem búa úti á landi hafa aðgang að skotvopnum en þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu og aðgengi að skotvopnum eykst með auknum heimilistekjum.

Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 28,9% karla hafa aðgang að skotvopnum borið saman við 12,7% kvenna. Hlutfall þeirra sem bjuggu úti á landi og sögðust hafa aðgang að skotvopnum var 25,7%, borið saman við 17,6% þeirra sem bjuggu á höfuðborgarsvæðinu.