Meirihluti er fylgjandi því að ríkið greiði listamannalaun samkvæmt nýrri könnun MMR. Alls eru nú 53,2% fylgjandi því að ríkið greiði listamannalaun og 46,8% andvíg.

Fylgismönnum listamannalauna hefur fjölgað á undanförnum árum. Samkvæmt sömu könnun sem gerð var árið 2010 voru einungis 38,6% fylgjandi en þá voru 61,4% andvíg því að ríkið greiði listamannalaun.

Stuðningsmenn ríkisstjórnarflokkanna voru líklegastir til að vera andvígir því að ríkið greiði listamannalaun, en einungis 23,2% kjósenda Framsóknarflokksins og 31,8% Sjálfstæðisflokksins voru fylgjandi. Kjósendur Samfylkingar og Vinstri græna voru líklegastir til að vera fylgjandi, en 80,3% kjósenda Samfylkingarinnar og 79,2% Vinstri græna voru fylgjandi.

Þeir sem eru tekjuháir skera sig einnig úr og eru líklegri til að vera fylgjandi. 64,7% þeirra sem eru með milljón á mánuði eða hærra eru fylgjandi, en hlutfallið er 53,1% í næsta tekjubili fyrir neðan (800 til 999 þúsund.)