Íbúar Berlínar samþykktu í gær tillögu um að taka ríflega 200 þúsund fasteignir í borginni, sem nú eru í eigu leigufélaga, eignarnámi. Vafamál er talið hvort tillagan mun standast stjórnarskrá.

Þingkosningar fóru fram í Þýskalandi í gær en samhliða þeim fóru ýmsar aðrar atkvæðagreiðslur fram. Þar á meðal kusu Berlínarbúar um það hvort taka ætti fasteignirnar eignarnámi eða skylda eigendur til að selja þær. Eigendur þeirra fengju þær vissulega bættar en þær eignarnámsbætur yrðu vel undir markaðsverði samkvæmt tillögunni.

Þegar atkvæði höfðu verið talin kom í ljós að 56,4% voru hlynnt tillögunni en 39% greiddu atkvæði gegn henni. Samkvæmt lögum þýða niðurstöðurnar að borgarstjórn verður að taka tillöguna til umræðu.

Fasteignamál í Berlín hafa verið mikið í umræðunni en leiguverð hefur hækkað umtalsvert. Nýverið var samþykkt leiguþak á íbúðir í borginni en það síðan dæmt ólögmætt af stjórnlagadómstól í Þýskalandi þar sem það bryti gegn réttinum til að ráðstafa eign sinni.

Líkt og flestar stjórnarskrár geymir sú þýska ákvæði um að eignarétturinn sé friðhelgur en taka megi eignir eignarnámi með lögum ef almannaheill krefst þess. Ber þá að bæta eigandanum þann gjörning. Vafamál er uppi um það hvort bætur „vel undir markaðsverði“ nægi til að komast gegnum nálarauga stjórnlagadómstólsins. Til að hann fái að skoða lögin þarf borgarstjórnin þó fyrst að samþykkja tillöguna en það er ekki talið sennilegt.