Um 60% landsmanna telja að þeim fjármunum sem áætlað er að verja til stjórnlagaþings sé mjög eða frekar illa varið en einungis 28% telja þeim fjármunum mjög eða frekar vel varið.

Þetta er niðurstaða könnunar sem útgáfufélagið Andríki lét Miðlun gera. Spurt var: Stjórnvöld telja að kostnaður við stjórnlagaþing verði á bilinu 564 til 704 milljónir miðað við núverandi áætlanir. Hversu vel eða illa telur þú að þeim fjármunum sé varið?

Alls svöruðu 846 manns könnuninni en svarhlutfall var 92%. 11% aðspurðra telja að fjármunum til stjórnlagaþings sé hvorki varið vel né illa.

Áberandi fleiri konur telja að fjármunum til stjórnlagaþings sé freka eða mjög illa varið eða tæp 67% á meðan 54% karlmanna voru á sama máli.

Þá telja tæp 67% þeirra sem búa á landsbyggðinni að fjármunum til stjórnlagaþings sé freka eða mjög illa varið á meðan 55% þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu eru á sama máli.

Sjá niðurstöður könnunarinnar í heild sinni (pdf)