Um 54 prósent landsmanna eru mótfallin því að Ísland gangi í Evrópusambandið en tæp 28 prósent eru fylgjandi. Rúnar Vilhjálmsson, prófessor í félagsfræði, segir í samtal við fréttastofu Ríkissjónvarpsins ólíklegra að þeir sem eru mótfallnir inngöngunni skipti um skoðun en hinir.

Rúnar Vilhjálmsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, kannaði nýverið afstöðu fólks til inngöngu í Evrópusambandið. Könnunin var gerð á netinu dagana 15. mars til 16. apríl og var úrtakið tæplega 1.900 manns. Svarhlutfall var um 67%.

Spurt var: Ertu fylgjandi eða mótfallinn því að Ísland gangi í Evrópusambandið? Af þeim sem svöruðu sögðust 27,5% vera mjög eða frekar fylgjandi inngöngu Íslands í Evrópusambandið, tæp 54% eru mjög eða frekar á móti og 18,7% eru hlutlaus.