Rúmur helmingur aðspurðra í nýrri skoðanakönnun MMR var andvígur því að ríkið myndi greiða listamannalaun, þrátt fyrir að hlutfall þeirra sem voru fylgjandi hafi hækkað nokkuð frá mars 2010. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 45,5% vera fylgjandi því að ríkið greiði listamannalaun nú, borið saman við 38,6% í mars 2010. 54,5% sögðust vera andvíg því að ríkið greiði listamannalaun nú, borið saman við 61,4% í mars 2010.

Skiptar skoðanir eftir Kyni, búsetu og stjórnmálaskoðunum.

Viðhorf til listamannalauna reyndist vera breytilegt milli hópa. Konur voru hlynntari því að ríkið greiði listamannalaun en karlar. Einnig voru þeir sem búsettir voru á höfuðborgarsvæðinu hlynntari listamannalaunum en þeir sem búsettir voru á landsbyggðinni. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 51,0% kvenna fylgjandi því að ríkið greiði listamannalaun, borið saman við 40,7% karla. Af þeim sem bjuggu á höfuðborgarsvæðinu sögðust 51,4% fylgjandi listamannalaunum, borið saman við 35,2% íbúa landsbyggðarinnar.

Mestur var munurinn þegar viðhorf til listamannalauna var skoðað eftir stjórnmálaskoðunum, bæði stuðningi við ríkisstjórnina sem og stuðningi við stjórnmálaflokka. Þannig voru þeir sem sögðust styðja ríkisstjórnina frekar hlynntir því að ríkið greiði listamannalaun en þeir sem ekki sögðust styðja ríkisstjórnina. Af þeim sem tóku afstöðu og studdu ríkisstjórnina sögðust 74,2% vera hlynnt því að ríkið greiði listamannalaun, borið saman við 31,4% þeirra sem ekki sögðust styðja ríkisstjórnina.

Hlutfallslega flest þeirra sem studdu Vinstri græn sögðust vera fylgjandi því að ríkið greiði listamannalaun og hlutfallslega fæst þeirra sem sögðust styðja Sjálfstæðisflokkinn. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 83,7% þeirra sem studdu Vinstri græn vera fylgjandi því að ríkið greiði listamannalaun, borið saman við 26,5% þeirra sem sögðust styðja Sjálfstæðisflokkinn.