Mikill munur er milli stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar og þeirra sem ekki styðja hana í því hvort þeir spili snjallsímaleikinn vinsæla Pokémon Go.

Einungis 10 stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar hafa spilað leikinn, þar af 5,3% spila leikinn reglulega, en meðal þeirra sem ekki styðja ríkisstjórnina er hlutfall þeirra sem hafa spilað leikinn 25,5% en þar af spila 7,1% þeirra leikinn reglulega.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í könnun sem MMR gerði dagana 22. til 29. ágúst síðastliðinn og náði til 949 einstaklinga, 18 ára og eldri.

Fimmtungur Íslendinga hafa spilað leikinn

Samkvæmt könnuninni hafa tæplega helmingur íslenskra ungmenna á aldrinum 18-29 ára spilað leikinn, eða 48,2%, en þar af kváðust 16% spila leikinn reglulega. Enn hærra hlutfall námsmanna hafa spilað leikinn, eða 51,5% þeirra.

Alls hafa 20,7% Íslendinga spilað Pokémon Go, sem er næstum því sama hlutfall og þeir á aldrinum 30-49 ára sem hafa spilað leikinn, eða 20,2%.

Fleiri höfuðborgarbúar hafa prófað, en fleiri landsbyggðarbúar spila leikinn reglulega

Einnig reyndist fólk sem búsett er á höfuðborgarsvæðinu líklegra til að hafa spilað Pokémon Go heldur en fólk sem búsett var á landsbyggðinni. 24,4% íbúa höfuðborgarsvæðsins hafa spilað leikinn, en þar af spila 6,1% íbúa hans leikinn reglulega.

Á sama tíma hafa einungis 14,1% íbúa landsbyggðarinnar spilað leikinn, en tæpur helmingur þeirra eða 7,0% spila leikinn reglulega, sem er hærra hlutfall en meðal íbúa höfuðborgarsvæðisins.